Þrumustuð í Grindavík
Þruman er félagsmiðstöð sem þjónustar fimmta til tíunda bekk í Grunnskóla Grindavíkur. Melkorka Ýr Magnúsdóttir er starfandi forstöðumaður Þrumunnar en fyrri forstöðumaður er í barneignarleyfi. Melkorka segir að í Þrumunni sé skipulögð starfsemi fyrir unglinga, viðburðir sem ýmist starfólk eða nemendur sjá um að skipuleggja og eru yfirleitt á kvöldin. „Við erum með opið þrjú kvöld í viku fyrir krakka úr áttunda til tíunda bekk, eitt kvöld er fyrir klúbbastarf og svo erum við með eitt kvöld fyrir fimmta til sjöunda bekk,“ segir Melkorka Ýr í viðtali við Víkurfréttir.
Þruman vel sótt
„Undanfarin ár hefur svipaður fjöldi unglinga sótt félagsmiðstöðina,“ segir Melkorka. „Þegar vel er mætt eru eitthvað yfir tuttugu krakkar en svo er allur gangur á því – við höfum yfirleitt verið að fá ágætis fjölda, fimmtán til tuttugu unglinga.“
– Klúbbastarfið, út á hvað gengur það?
„Eins og er erum við með tvo klúbba starfandi, stelpu- og strákaklúbb. Núna erum við svolítið að einblína á að ná inn stelpum og strákum í sitt hvorri grúbbunni. Við erum þá að reyna að ná til þeirra sem eiga erfiðara félagslega og eru ekki að mæta á opnu húsin. Það er aðeins sérhæfðara starf unnið í þessum klúbbum þar sem við erum að vinna mikið með sjálfstyrkingu og sjálfsmynd krakkanna.“
Elti foreldrana að vestan
– Þú er Ísfirðingur en hvernig stóð á því að þú fluttir til Grindavíkur?
„Já, er Ísfirðingur. Ég er 24 ára og hef verið í Grindavík í um fimm ár. Ég elti foreldra mína hingað eftir að ég kláraði menntaskólann heima. Mamma og pabbi voru flutt áður en ég kláraði, svo þegar ég var búin með skólann var ekkert annað í stöðunni en að flytja til Grindavíkur.
Melkorka er á öðru ári í tómstunda- og félagsmálafræði í Háskóla Íslands. Hún á eitt ár eftir og útskrifast á næsta ári.
„Ég ætlaði ekkert að leggja tómstunda- og félagsmálafræði fyrir mig en eitt leiddi af öðru. Ég byrjaði að vinna hér í Þrumunni sem kvöldstarfsmaður og þegar ég fór að vinna við þetta þótti mér þetta svo skemmtilegt. Sigríður Etna, sem var þá yfir félagsmiðstöðinni, hafði farið í þetta nám og sannfærði mig um að tómstunda- og félagsmálafræði væri málið fyrir mig. Ég sótti sjálf mikið félagsmiðstöðina heima svo ég þekki vel inn á hvað fer fram á svona stöðum – þetta lá vel fyrir og það er æðislegt að að vinna með krökkum.“
– Þú hefur í nógu að snúast – ert Crossfit-þjálfari, söngkona, í háskóla ...
„Já, ég er svolítið virk og vil hafa mikið að gera – helst vera allt í öllu,“ segir hún hlægjandi. „Ég hef mjög breytt áhugasvið, svo maður verður að blanda þessu eitthvað saman.
Ég held að ég hafi prófað flestar íþróttir sem voru í boði þegar ég var yngri. Ég var í sundi, fótbolta og körfubolta, æfði dans og allskonar svona – en ég entist lengst í fótbolta og stundaði hann mest þegar ég var yngri. Ég hef ógeðslega gaman af íþróttum og fylgist vel með. Körfubolti hefur alltaf verið mitt uppáhald þótt ég hafi aldrei beint verið með hæfileikann í honum – enda er ég bara einn og sextíu á hæð, hef ekki mikið með mér þar.“
Þegar Melkorka fluttist til Grindavíkur var hún auðvitað fljót að finna sér nýtt áhugamál.
„Svo fann ég Crossfittið þegar ég var tvítug og ánetjaðist það. Það er svipað með Crossfit og aðrar íþróttir, maður er að æfa með hópi og það er stemmning á æfingu – öðruvísi en að vera einn að dandalast í ræktinni. Svo hef ég verið að þjálfa í stöðinni hér í Grindavík síðasta eitt og hálfa árið.“
Búin að syngja frá því hún var barn
Melkorka segir að fyrir vestan sé mikið lagt upp úr því að krakkar fari í tónlistarnám. Hún byrjaði fjórtán ára gömul í söngnámi og sér ekki eftir því.
„Það var alltaf mikil tónlist á mínu heimili, pabbi minn er mikill tónlistarkarl og þegar ég var yngri var mjög fjölbreytt tónlist leikin á mínu heimili. Ég er skilgreiningin á alætu á tónlist, ég hlusta á alla tónlist.
Ég var búin að vera mikið í kórastarfi og kórstjórinn hvatti mig til að fara að læra söng. Ég byrjaði um leið og ég mátti, sem er um fjórtán ára minnir mig, og er búin að vera að syngja síðan þá. Ég sé ekki eftir því.“
– Þú hlustar á alla tónlist en hvaða tónlist flyturðu helst?
„Ég er auðvitað klassískt menntuð svo þegar ég hef verið að koma fram hefur það yfirleitt verið tengt klassíkinni – en þegar ég hef verið að koma fram í veislum og svoleiðis þá hefur það oftar en ekki verið poppaðri tónlist. Ég er á báða vegu – í klassík og poppaðri tónlist.“
Óttalegur rússíbani
Sem stendur er Melkorka Ýr að leysa Elínborgu Invarsdóttur af sem forstöðumaður Þrumunnar en Elínborg er í fæðingarorlofi. En hvað segir Melkorka að sé framundan?
„Við erum að klára árið núna. Það er að líða að sumri, svo byrjum við aftur í haust. Í haust verðum við Elínborg meira saman í þessu. Það er margt í gangi en þetta er auðvitað búinn að vera óttalegur rússíbani í þessu Covid-ástandi. Maður þorir varla að skipuleggja eitthvað fram í tímann. Hér var allt í blóma þegar það rýmkaði til í sóttvarnaraðgerðum í febrúar, mars og við ætluðum að fara að halda árshátíð og fara í skíðaferðir. Daginn fyrir árshátíðina var öllu skellt aftur í lás svo við bara bíðum eftir að það rýmki til – þá getum við kannski haldið árshátíð eða eitthvað stærra. Annars höfum við verið meira í svona minni viðburðum eins og opnum húsum síðastliðið ár.
Skíðaferðirnar sem við förum eru dagsferðir. Þá förum við snemma á morgnana, krakkarnir í sjöunda til tíunda bekk fá frí úr skólanum, og það er tekin rúta í Bláfjöll, skíðað allan daginn og svo rúta aftur heim um kvöldið. Við höfum reynt að fara allavega einu sinni á ári í svoleiðis ferðir en fórum ekki í ár.“